Byrjað var að planta skógarplöntum á Björgum árið 1945. Þá var girt af svæði í Bæjarfjallinu suður við Karlsá á svonefndum Hrossahjalla. Skógræktargirðingin var síðan stækkuð árið 1988.
Mikið hefur verið plantað af greni, mest rauðgreni og sitkagreni. Einnig furu, lerki og birki. Grenið hefur dafnað best þótt norðanáttin hafi leikið það nokkuð grátt áveðurs. Furan hefur einnig vaxið nokkuð vel en lerkið farið illa í norðanáttinni. Lerkiplöntur sem gróðursettar hafa verið í skjóli síðustu ár hafa þó dafnað betur. Reynt er að planta einhverjum plöntum á hverju ári en einnig að grisja eldri skógarlundina sem eru mjög þéttir.
Síðustu ár hafa árlega verið sótt í skógræktina myndarleg jólatré fyrir heimilin þrjú.
Skjólbeltarækt hófst sumarið 1999 í tengslum við Norðurlandsskóga.
Alaskavíðir hefur verið notaður sem aðalskjól fyrir norðanáttinni. Hann hefur vaxið vel en kalið töluvert á veturna. Viðja hefur sprottið vel og fallega. Næst íbúðarhúsum eru beltin fjórföld og miðraðirnar hafðar gisnar til að fanga snjó á veturna.
Skjólbeltin eru þegar farin að gefa skjól fyrir skepnur og garðrækt. Þangað sækja líka fuglar til skjóls og hreiðurgerðar. Ásókn fuglanna á án efa eftir að aukast þegar berin fara að koma á sólberjarunna og reynitré. Auk fyrrtaldra tegunda hefur verið plantað greni og ösp, brekkuvíði, gulvíði og loðvíði. Þessi belti eiga því, vegna fjölbreytni í plöntuvali, einnig eftir að gleðja augað þegar þau vaxa upp